Leggur fé til höfuðs kvikmyndagerðarmanni

Pakistanskur ráðherra hefur lagt fé til höfuðs kvikmyndagerðarmanni, sem gerði kvikmynd þar sem skopast er að íslam. Umrædd mynd hefur valdið mikilli ólgu í múslimaríkjum.

Ghulam Ahmad Bilour, ráðherra járnbrautanna í Pakistan, sagði við AP-fréttastofuna að hann mundi greiða þeim, sem verður kvikmyndagerðarmanninum að bana, 100 þúsund dali, jafnvirði 12,4 milljóna króna, úr eigin vasa enda sé það heilög skylda sín. Sagði Bilour að talibanar eða hryðjuverkasamtökin al-Qaeda gætu sem best keppt um þessi verðlaun.

Á þriðja tug manna lét lífið í gær í átökum milli mótmælenda og lögreglu í Pakistan en víða var róstusamt í landinu þegar fólk vildi mótmæla kvikmyndinni.  

Ekki er vitað með vissu hverjir stóðu að gerð kvikmyndarinnar Sakleysi múslima, sem hefur valdið þessari ólgu. Nakoula Basseley Nakoula, sem talinn er hafa framleitt myndina, fer nú huldu höfði.

Andúð á Bandaríkjunum blossaði upp í múslimaríkjum eftir að stikla úr myndinni, með arabísku tali, var sett á vefinn YouTube í byrjun september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert