Sýrlensk börn hafa upplifað skelfilegt ofbeldi

Börn í Sýrlandi hafa orðið vitni að skelfilegum ofbeldisverkum.
Börn í Sýrlandi hafa orðið vitni að skelfilegum ofbeldisverkum. AFP

Átökin í Sýrlandi koma ekki síst niður á börnum, sem hafa undanfarið eitt og hálft ár hafa horft upp á skefjalaust ofbeldi; fjöldamorð og pyntingar. Þau hafa séð foreldra sína myrta og fjöldi barna hafa verið pyntuð og myrt.

Þetta segir Jasmine Whitbread, formaður samtakanna Save the Children, en í dag birtu samtökin skýrsluna „Falin grimmdarverk“ þar sem frásagnir sýrlenskra barna og foreldra þeirra birtast. Samtökin hvetja Sameinuðu þjóðirnar til að efla eftirlit með ofbeldi gegn börnum í landinu.

Samtökin hafa ítrekað leitað eftir því að koma sýrlenskum börnum til aðstoðar, en þeim hefur verið meinaður aðgangur að landinu.

Skelfilegur vitnisburður barna

„Sýrlensk börn hafa upplifað skelfilegt ofbeldi. Þau þurfa aðstoð sérfræðinga til að komast yfir þessa lífsreynslu,“ segir Whitbread í samtali við AFP-fréttastofuna.  „Vitnisburð þeirra ætti að skrá niður þannig að þeir sem bera ábyrgð á þessum voðaverkum gagnvart börnum verði látnir svara til saka.“

„Sært fólk og látnir lágu eins og hráviðri um allt. Ég fann líkamshluta um allt. Tveimur dögum eftir fjöldamorðin voru hundarnir ennþá að éta líkin,“ segir í vitnisburði hins 14 ára gamla Hassans.

Annar sýrlenskur drengur, Wael sem er 16 ára, sagðist hafa þekkt sex ára gamlan dreng sem sætti miklum pyntingum.

Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights telja að meira en 29.000 hafi látist í átökum og mótmælum í Sýrlandi síðan í mars í fyrra, en Sameinuðu þjóðirnar telja að það séu töluvert færri, eða um 20.000. Engar tölur af þessu tagi hafa þó fengist staðfestar.

Samkvæmt Flóttamannastofnun SÞ hafa meira en 250.000 Sýrlendingar flúið til nágrannalandanna á þessum sama tíma.

Sum börn í Sýrlandi hafa horft upp á morð og …
Sum börn í Sýrlandi hafa horft upp á morð og pyntingar. AFP
Í dag birtu samtökin Save the Children skýrsluna „Falin grimmdarverk“ …
Í dag birtu samtökin Save the Children skýrsluna „Falin grimmdarverk“ þar sem fjallað er um áhrif átakanna í Sýrlandi á börnin í landinu. AFP
Frá Sýrlandi.
Frá Sýrlandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert