Tinni tekinn úr hillunum

Frá Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar.
Frá Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar. Wikipedia

Myndasögurnar um ævintýri Tinna hafa verið fjarlægðar úr hillum bóksafns í Stokkhólmi á þeim forsendum að þær feli í sér andúð í garð fólks af afrískum uppruna en bóksafnið, Kulturhuset, er ekki síst ætlað ungu fólki.

Haft er eftir Behrang Miri, sem hefur umsjón með bókum fyrir börn og unglinga hjá bóksafninu, á í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter að bækurnar um Tinna sýni Afríkubúa sem heimska, Arabar fljúgi á fljúgandi teppum og Tyrkir reyki vatnspípur.

Hann segir að þegar börn lesi slíkar bókmenntir geri þau sér ekki grein fyrir þeim staðalímyndum sem settar séu fram í þeim. „Börn lesa ekki smáa letrið, þau bara hella sér samstundis á kaf í söguna. Tinni býður upp á skopstælingu frá sjónarhóli nýlendustefnunnar. Börn drekka í sig þær upplýsingar gagnrýnislaust.“

Fram kemur í fréttinni að starfsmenn bókasafnsins vinni nú að því að fara yfir innihald fleiri barnabóka í eigu þess með það fyrir augum að bjóða ekki upp á efni með staðalímyndum, átökum kynjanna og hómófóbíu. Það sama á við um efni fyrir fullorðna. „Allar bókmenntir fyrir börn ættu að vera endurskoðaðar,“ segir Miri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert