Óttast áhrif herskárra múslíma

AFP

Innanríkisráðherra Frakklands, Manuel Valls, segir að von sé á fleiri handtökum í tengslum við aðgerðir lögreglu gagnvart öfgafullum múslímum. Varar hann við því að ekki sé ólíklegt að hundruð herskárra einstaklinga séu með vopn á heimilum sínum.

Um helgina fór franska lögreglan í húsleitir víða um landið. Einn öfgamaður lést í aðgerðum lögreglu og tólf voru handteknir. Eru þeir grunaðir um að hafa átt aðild að sprengjutilræði í verslun gyðinga í úthverfi Parísar í síðasta mánuði og fleiri árásum sem beint hefur verið gegn gyðingum.

Að sögn Valls hafa tugir ef ekki hundruð einstaklinga getu til að skipuleggja árásir líkt og þær sem gerðar hafa verið að undanförnu.

Á laugardag skaut sérsveit lögreglu mann til bana í Strassborg. Maðurinn, Jeremie Louis-Sidney, 33 ára, hóf skothríð á lögreglu þegar hún reyndi að handtaka hann. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fundust lífsýni úr Louis-Sidney á pinnanum á handsprengju sem kastað var inn í verslunina í úthverfi Parísar hinn 19. september.

Lögreglan handtók eins og áður sagði tólf manns í París og nágrenni og á Frönsku ríveríunni á laugardag. Lögreglan lagði einnig hald á 27 þúsund evrur, 4,3 milljónir króna, í reiðufé auk vopna, bókstafstrúarlesefni, tölvuskjöl og lista yfir samtök gyðinga í Frakklandi.

Gyðingar í Frakklandi óttast mjög um hag sinn en sífellt algengara verður að ráðist sé á fólk vegna trúarskoðana þess í landinu. Ekki síst eftir að Mohamed Merah myrti rabbína, tvö barna hans og eitt skólasystkini þeirra í skóla í Toulouse í mars. Merah myrti einnig þrjá franska hermenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert