Fóstureyðingastöð opnuð í Belfast

Óttast er að til mótmæla komi er fóstureyðingarstöðin verður opnuð …
Óttast er að til mótmæla komi er fóstureyðingarstöðin verður opnuð í Belfast. mbl.is/afp

Í næstu viku verður opnuð á Norður-Írlandi fyrsta læknastofan sem framkvæmir fóstureyðingar. Óttast er að það verði tilefni heiftúðlegra mótmæla.

Um er að ræða einkarekna stofu í Belfast en þar verður auk fóstureyðinga boðið upp á fræðslu um kynlíf, meðgöngu og heilbrigðisþjónustu er lýtur að kynferðismálum. Þar sem um einkafyrirtæki er að ræða verður enginn lögregluvörður viðhafður við stöðina.

„Þau verða að útvega sér eigin öryggisverði, en dragi til tíðinda komum við á vettvang,“ segir talsmaður lögreglunnar. Fleiri stofnanir eru í sömu byggingu og læknastofan verður og hafa öryggisverðir nú þegar tekið til starfa þar.

Afar erfitt er að fá fóstri eytt í Norður-Írlandi og hópar og samtök sem andvíg eru þeim - svo og minni stjórnmálaflokkar - hafa lýst yfir andstöðu sinni við starfsemi læknastofunnar.

Jim Allister hjá flokki sambandssinna, TUV, sagðist ekki vita til þess að þörf væri fyrir stöð af þessu tagi því eftirspurn gæti verið eftir þjónustu af þessu tagi. 

Aðeins var bundinn endi á 35 þunganir í Norður-Írlandi í fyrra með eyðingu fósturs. Talið er hins vegar að um eittþúsund konur fari árlega til Englands til að láta eyða fóstri. Lög sem gilda um heimildir til fóstureyðinga í Englandi, Wales og Skotlandi ná ekki til fjórða lands breska konungdæmisins, Norður-Írlands. Þar í landi hefur verið lítill áhugi á að breyta til og tilraunir bresku stjórnarinnar til að láta lögin ná yfir héraðið 2008 mættu mikilli andspyrnu.

Það brýtur ekki í bága við lög að eyða fóstri í Norður-Írlandi sé líf eða heilsa móðurinnar í hættu af völdum þungunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert