Skuldir ESB-ríkja jukust

Fjárlagahalli minnkaði í ESB 2011 en skuldir hækkuðu.
Fjárlagahalli minnkaði í ESB 2011 en skuldir hækkuðu. mbl.is/afp

Skuldir aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) jukust á árinu 2011 og eru langt yfir viðmiðunarmörkum sambandsins. En betur gekk ríkjunum í að hemja útgjöld þar sem fjárlagahalli minnkaði á sama tíma.

Þetta kemur fram í lokaskýrslu Eurostat, hagstofu ESB, sem út kom í dag. Þar segir, að halli á fjárlögum evruríkjanna 17 hafi að meðaltali verið 4,1% af vergri landsframleiðslu (GDP). Þar hafi verið um framför að ræða frá 2010 er hallinn var 6,2% en engu að síður talsvert yfir hámarki ESB, sem er 3%.

Uppsafnaðar skuldir ríkjanna 17 hækkuðu árið 2011 úr 85,4% af landsframleiðslunni í 87,3%. Í þeim efnum er hið leyfilega hámark sáttmála ESB 60%.

Fyrir ESB-ríkin öll lækkaði fjárlagahallinn úr 6,5% í 4,4% milli áranna 2010 og 2011 en skuldirnar jukust úr 80% af vergri landsframleiðslu í 82,5%.

Mestur var fjárlagahallinn á Írlandi, eða 13,4%, í Grikklandi og Spáni, 9,4%, og í Bretlandi 7,8%. Til samanburðar var hallinn einungis 0,8% í Þýskalandi, stærsta og öflugasta hagkerfi álfunnar. Og afgangur var á fjárlögum í Ungverjalandi, 4,3%, í Eistlandi, 1,1%, og í Svíþjóð, 0,4%.

Grikkir eru í efsta sæti á skuldalistanum, en skuldir þeirra árið 2011 námu 170,6% af GDP. Í öðru sæti eru Ítalir með 120,7%, Portúgal með 108,1% og Írland með 106,4%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert