Trump gerir Obama tilboð

Fasteignasalinn, auðjöfurinn og raunveruleikaþáttastjarnan Donald Trump birti í dag myndskeið þar sem hann gerir Barack Obama forseta tilboð. Ef Obama birti upplýsingar um árangur sinn og umsóknareyðublöð í skóla og umsókn hans um vegabréf þá sé hann tilbúinn til að gefa 5 milljónir dollara til góðgerðarmála að vali Obama.

Trump birti í morgun tilkynningu um að hann myndi síðar í dag birt nýjar upplýsingar sem myndu varpa nýju ljósi á kosningabaráttuna. Hann birti síðan myndskeið síðdegis, en þar skorar hann á forsetann að birta upplýsingar um menntun sína og vegabréf. Trump segir í yfirlýsingunni að mikið vanti upp á að Obama hafi sýnt gagnsæi varðandi feril sinn.

Trump hefur haldið því fram að mikill vafi leiki á að Obama hafi mátt bjóða sig fram til forseta því að hann hafi ekki fæðst í Bandaríkjunum. Hann skoraði á Obama að birta fæðingarvottorð sitt. Obama gerði það, en síðan hefur lítið heyrst frá Trump um þetta atriði.

Trump íhugaði um tíma að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna. Ekkert varð úr því en hann styður hins vegar Mitt Romney í kapphlaupinu og Hvíta húsið.

Tilboðið sem Trump hefur gert Obama gildir til 31. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert