Dauðadóm snúið eftir 34 ár

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Bandarískur dómstóll sneri í dag dauðadómi yfir fanga sem beðið hefur aftöku í 34 ár, lengst allra dauðadæmdra fanga í Kaliforníu. Í næstu viku verður þjóðaratkvæðagreiðsla í Kaliforníu þar sem greitt verður atkvæði um hvort leggja eigi dauðarefsingar af. 

Douglas Stankewitz er 54 ára gamall en hefur setið meirihluta ævinnar, í 34 ár, á dauðadeild. Hann var dæmdur árið 1978 fyrir að myrða konu. Tveir af þremur dómurum áfrýjunardómstóls komust í dag að þeirri niðurstöðu að lögmaður mannsins hefði staðið illa að málsvörn hans á sínum tíma. Dóminum var því breytt í lífstíðarfangelsi, nema saksóknarar ákveði að áfrýja niðurstöðunni innan 90 daga.

Í reynd gætu þeir hins vegar haft skemmri tíma til stefnu því samhliða forsetakosningunum í næstu viku verður kosið um hvort dauðarefsingin verði alfarið afnumin í Kaliforníu. Þetta fjölmennasta ríki Bandaríkjanna tók upp dauðarefsingar að nýju árið 1978.

Stuðningur við að afnema refsiákvæðið hefur farið vaxandi en samkvæmt skoðanakönnunum eru þeir þó enn fleiri, eða 45%, sem vilja halda því óbreyttu. 13% hafa ekki gert upp hug sinn. 

700 fangar eru nú á dauðadeild í Kaliforníu, fleiri en í nokkru öðru ríki. Frá árinu 1978 hafa 13 fangar verið teknir af lífi, en síðasta aftaka fór fram fyrir sjö árum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert