Lokaspretturinn er hafinn

Eftir harða og oft á tíðum óvægna baráttu er síðasti dagur kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum nú runninn upp. Svo mjótt er á mununum á milli þeirra Barack Obama og Mitts Romney að fáir treysta sér til þess að fullyrða hvor hreppir forsetastólinn.

Þeir hafa haldið hundruð kosningafunda og fjáröflunarsamkoma, varið stjarnfræðilegum upphæðum í birtingu auglýsinga og hafa þrisvar sinnum mæst í kappræðum í beinni sjónvarpsútsendingu.

Í dag er síðasti dagurinn til að sannfæra þann mikla fjölda kjósenda sem enn eru óákveðnir og nú er öllu tjaldað til. Joe Biden, varaforseti og Paul Ryan, varaforsetaefni Repúblikana fara mikinn og rekja ástæðurnar fyrir því hvernig kjósendur ættu að verja atkvæðum sínum og sömuleiðis þær Michelle Obama, forsetafrú og Ann Romney, eiginkona Mitts Romneys.

„Ég þarfnast þín Ohio“

Bæði Obama og Romney voru á ferðinni langt fram á nótt. Romney hvatti kjósendur í þeim ríkjum þar sem mesta óvissan ríkir til að kjósa. „Það verður nokkuð mikið að gera hjá okkur næstu daga, en það er að tryggja að við sigrum á þriðjudaginn,“ sagði Romney á kosningafundi í Virginíuríki í gær.

Ohio er eitt af svonefndum lykilríkjum, en talið er næsta víst að vinni Obama þar, auk Iowa og Wisconsin, sé hann búinn að tryggja sér annað kjörtímabil. 

„Ég þarfnast þín Ohio,“ sagði Obama við gesti á kosningafundi í borginni Cincinnati í Ohio í gærkvöldi. „Ef þið eruð tilbúin til að vinna með mér, knýja dyra fyrir mig. Ef þið eruð tilbúin til að kjósa snemma fyrir mig, hringja fyrir mig, kynna mig; þá munum við vinna Ohio. Þá munum við vinna þessar kosningar,“ sagði Obama.

Barist um Pennsylvaníu

Fylgi Romneys hefur aukist snarlega í Pennsylvaníuríki og kemur það nokkuð á óvart þar sem fylgi Demókrata hefur löngum verið meira þar. Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti mun fara þangað í dag og halda þar fjóra fundi Obama til stuðnings, í því skyni að vinna kjósendur aftur á hans band.

„Að lokum, þá er þetta undir ykkur sjálfum komið,“ sagði Obama á fundi í Concord í New Hampshire í gær. „Ykkar er valdið. Þið getið mótað stefnuna fyrir þetta land næstu áratugina með því hvernig þið kjósið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert