Demókratar með meirihluta í öldungadeildinni

Tammy Baldwin er fyrsti samkynhneigði þingmaðurinn til að ná kjöri …
Tammy Baldwin er fyrsti samkynhneigði þingmaðurinn til að ná kjöri í öldungadeildina. AFP

Demókratar verða áfram með meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings. Frambjóðendur þeirra unnu sigra í  Massachusetts, Indiana og Virginíu. Repúblikanaflokkurinn verður hins vegar áfram með meirihluta í fulltrúadeildinni.

Demókratar voru 53 þingmenn í öldungadeildinni en repúblikanar voru með 47 þingmenn. Kosið var um 33 sæti í öldungadeildinni að þessu sinni. Eins og staðan er núna hafa dermókratar tryggt sér 51 sæti, repúblikanar eru með 44 og tveir óháðir þingmenn hafa náð kjöri.

Í Massachusetts sigraði Elizabeth Warren, frambjóðandi demókrata, en Demókrataflokkurinn hefur átt þar tryggt sæti áratugum saman. Frambjóðandi repúblikana, Scott Brown, sigraði þar árið 2009 eftir að Edward Kennedy lést.

Frambjóðandi demókrata, Claire McCaskill, sigraði einnig í Missouri, en þar hafði frambjóðandi repúblikana, Todd Akin, lenti í miklum vandræðum vegna ummæla sinna um „lögmæta nauðgun“.

Repúblikaninn Richard Mourdock tapaði þingsæti sínu í Indiana, en hann sagði í kosningabaráttunni að ef þungun ætti sér stað eftir nauðgun væri það vegna vilja guðs.

Fyrsti samkynhneigði þingmaðurinn í öldungadeildinni

Tammy Baldwin var kjörin öldungadeildarþingmaður í Wisconsin, en sigur hennar markar viss tímamót, en hún hefur lýst því yfir opinberlega að hún sé samkynhneigð. Hún er fyrsti opinberlega samkynhneigði þingmaðurinn til að ná kjöri í öldungadeildina.

Mourdock, sem tapaði í Indiana, nýtur stuðnings Teboðshreyfingarinnar. Ted Cruz, er einnig yfirlýstur stuðningsmaður hreyfingarinnar, en hann sigraði í Texas. Hann er þriðji maðurinn af spænskum uppruna til að ná kjöri í deildina.

Í Virginíu sigraði  demókratinn Tim Kaine, en hann er fyrrverandi ríkisstjóri. Í Connecticut sigraði demókratinn Christopher Murphy, en hann tekur við af Joe Lieberman. Liberman var varaforsetaefni Al Gores, en sagði sig síðar úr Demókrataflokknum og varð óháður þingmaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert