Mannfall í hörðum jarðskjálfta

Byggingar í höfuðborginni voru rýmdar eftir að skjálftinn reið yfir
Byggingar í höfuðborginni voru rýmdar eftir að skjálftinn reið yfir AFP

Að minnsta kosti tíu létust í suðvesturhluta Gvatemala í dag er jarðskjálfti, sem mældist 7,4 stig, reið þar yfir.

Allir þeir sem létust voru íbúar í bænum San Pedro Sacatepequez, sem er 250 km vestur af höfuðborg landsins, Gvatemala-borg.

Erfiðlega hefur gengið við að ná sambandi við svæðið þar sem símalínur eru dauðar og á einhverjum stöðum er rafmagnslaust.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir stjórnvöldum í Gvatemala að það muni væntanlega taka sólarhring að koma á vega- og símasambandi við svæðið. Skjálftinn fannst víða og hristust byggingar allt frá Mexíkó-borg til San Salvador.

Samkvæmt upplýsingum frá jarðskjálftafræðingum reið skjálftinn yfir klukkan 10:35 að staðartíma, 16:35 að íslenskum tíma.

Slökkviliðsmenn segja að skóli hafi hrunið í San Marcos héraði sem er skammt frá landamærum Mexíkó. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert