Tugir hafa látist á Gazaströndinni

Frá Gazaströndinni í dag.
Frá Gazaströndinni í dag. AFP

Tveir Palestínumenn létust í loftárásum Ísraela á Deir al-Balah á Gazaströndinni  í dag. Undanfarna þrjá sólarhringa hafa 42 Palestínumenn látist í árásunum, þar af tíu í dag. Tæplega 400 eru særðir, þar af margir lífshættulega. Í dag hafa Ísraelar gert leifturárásir á Gazaborg og Rafah. 

Á þessum þremur sólarhringum hafa þrír Ísraelar látið lífið og 18 eru særðir. 

Mohamed Morsi, forseti Egyptalands, segir að ríkisstjórn hans hafi átt í viðræðum við bæði Palestínumenn og Ísraela í dag og að margt bendi til þess að samningar gætu náðst um vopnahlé.

Þetta sagði Morsi á blaðamannafundi sem hann hélt ásamt  Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, en áréttaði að engin trygging væri fyrir því að þessir samningar myndu nást.

Morsi biðlaði til Cristinu Kirchner, forseta Argentínu, í gær og bað hana að beita sér fyrir því að Mið-Ameríkuríki myndu pressa á Ísraela og Palestínumenn að stöðva ógnaröldina á Gaza. Morsi og Kirchner ræddust við í gær, þar sagði Morsi að dráp á óbreyttum borgurum væru komin að hættumörkum sem ekki hefðu sést í mörg ár á Gazaströndinni.

Háttsettur meðlimur Hamas-samtakanna í Palestínu sagði við fréttamann AFP-fréttastofunnar að Hamas-liðar væru tortryggnir á vopnahlé, því þeir efuðust um að Ísraelar myndu virða skilyrði þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert