Átta börn létust í árásunum

Palestínumenn hafa mótmælt árásunum sem nú eiga sér stað á …
Palestínumenn hafa mótmælt árásunum sem nú eiga sér stað á Gazaströndinni og minnt á að börn hafa orðið fórnarlömb árásanna. AFP

Loftárásir Ísraela á Gazaströndina í dag hafa orðið 21 manni að bana, aðallega konum og börnum. Átta börn létust í árásunum og fimm konur.

Ein sprengja lenti á þriggja hæða húsi og þar létust átta úr einni og sömu fjölskyldunni, þar af fjögur börn, að því er heilbrigðisstarfsmenn á Gaza segja AFP-fréttastofunni.

Ísraelsher hefur ekki tjáð sig sérstaklega um þessa árás í dag en hefur sagt að loftherinn hafi skotið á þrjú skotmörk í Gazaborg í dag.

Stuttu síðar létust þrír Palestínumenn til viðbótar í árásum Ísraelshers. Í Jabaliya létust feðgar er þeir voru að aka vatnsflutningabíl í gegnum flóttamannabúðir.

Um miðnætti létust tvö smábörn, þriggja og eins árs, í einni árásinni. Nokkrum klukkustundum síðar lést 18 mánaða gamalt barn í annarri árás. Tveir bræður þess barns voru fluttir alvarlega slasaðir á sjúkrahús.

Hiti hefur nú hlaupið enn á ný í átök Ísraelsmanna og Palestínumanna. Frá því á miðvikudag hafa 67 Palestínumenn látist og yfir 600 særst í árásum Ísraelshers. Einnig hafa þrír Ísraelar látist og um 50 særst í árásunum. Tíu hinna særðu eru hermenn. Einn þeirra er sagður alvarlega slasaður.

Í dag hafa níu manns særst í eldflaugaárásum á suðurhluta Ísraels. Ísraelsher segist hafa skotið á 1.132 skotmörk á Gaza. Á sama tíma hefur 544 eldflaugum verið skotið á Ísrael af palestínskum hermönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert