Íranar vilja koma vopnum til Palestínu

Frá Gazasvæðinu í gær.
Frá Gazasvæðinu í gær. AFP

Sendinefnd á vegum Arababandalagsins fyrirhugar heimsókn á Gazasvæðið á þriðjudaginn til að sýna íbúum svæðisins stuðning vegna loftárása Ísraela á svæðið. Íranar vilja láta Palestínumenn fá vopn.

Ákveðið var að senda nefndina eftir neyðarfund utanríkisráðherra Arabaríkjanna í Kaíró í Egyptalandi í gær. Meira en 50 Palestínumenn hafa látið lífið í árásum Ísraela sem hófust á miðvikudaginn. Þrír Ísraelar hafa látist í árásum Palestínumanna.

Írönsk stjórnvöld segja að múslímaríki eigi að leggja Palestínumönnum lið með því að láta þeim vopn í té. „Þrátt fyrir að þau sýni Palestínu pólitískan stuðning, þá er það ekki nóg,“ sagði talsmaður Íransstjórnar. „Hvers vegna ættu múslímaríki ekki að láta Palestínumenn fá vopn,“ sagði hann og bætti við að Bandaríkin og önnur vestræn ríki sæju Ísraelsher fyrir vopnum.

Hann sagði ennfremur að þau múslímaríki, sem nú sendu vopn til Sýrlands, ættu að senda þau til Palestínu, en nefndi engin einstök ríki í því sambandi.

Biðlar til alþjóðasamfélagsins

Mohamed Morsi, forseti Egyptalands, hefur nú um helgina biðlað til alþjóðasamfélagsins um að taka höndum saman til að fá Ísraela og Palestínumenn til að leggja niður vopn og hefja viðræður.

Shimon Peres, forseti Ísraels, sagðist fagna þessari viðleitni, en sagði Hamas-samtökin lítt fús til viðræðna. Hann sagði að Ísraelar reyndu allt sem í þeirra valdi stæði til að koma í veg fyrir að skaða almenna borgara, öfugt við Hamas-liða sem miðuðu á almenna borgara.

Í viðtali við bresku sjónvarpsstöðina Sky News í morgun sagði Peres aðgerðir Ísraelsmanna vera sjálfsvörn og að engar fyrirætlanir væru um að taka yfir Gazasvæðið.

Shimon Peres, forseti Ísraels.
Shimon Peres, forseti Ísraels. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert