Stuðningsmaður Morsis fellur í átökum

Egypti gengur yfir Tahrir-torg fyrr í dag. Á torgið hefur …
Egypti gengur yfir Tahrir-torg fyrr í dag. Á torgið hefur verið ritað: "Morsi farðu". AFP/MAHMOUD kHALED

Ungur stuðningsmaður íslamista í Egyptalandi féll í átökum á milli mótmælenda og stuðningsmanna Mohameds Morsi, forseta Egyptalands, sem áttu sér stað rétt sunnan Alexandríu, næst stærstu borgar landsins.

Átökin áttu sér stað fyrir framan skrifstofu Múslimska bræðralagsins, flokks Morsis í bænum Damanhour en þau brutust út í kjölfar mótmæla gegn þeim auknu völdum sem Morsi hefur tekið sér. Segja vitni að gripið hafi verið til Molotoff-kokteila, barefla og grýtis í átökunum. 

Stuðningsmaðurinn, Islam Fathi Mohammed er sá fyrsti sem lætur lífið í mótmælum síðan Morsi ákvað síðastliðinn fimmtudag að taka sér aukin völd, þ.á m. að gefa út tilskipanir og lög sem ekki væri hægt að andmæla. Ákvörðunin hefur leitt til ásakanna stjórnarandstöðunnar um að Morsi hygðist taka sér einræðisvald. Auk Mohammeds særðust tíu aðrir í átökunum. 

Stuðningsmenn og andstæðingar Morsis hafa átt í skærum reglulega síðan á fimmtudaginn og hefur verið ráðist á skrifstofur flokks Morsis víða um Egyptaland. Stuðningsmenn forsetans fjölmenntu í kvöld fyrir framan moskur í höfuðborginni Kaíró og víðar um landið til þess að sýna honum stuðning sinn. Ætla þeir að skipuleggja stóra fjöldagöngu á þriðjudaginn sem stefnt er til höfuðs boðuðum mótmælum andstæðinga forsetans. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert