Hóf skothríð í veislu vegna hávaðatruflunar

Skammbyssa
Skammbyssa mbl.is

Skotfimikennari í Frakklandi missti stjórn á skapi sínu aðfaranótt laugardags vegna hávaðatruflunar frá nágrönnum sem voru að halda upp á afmæli. Maðurinn hóf skothríð í íbúð nágrannans með þeim afleiðingum að einn lést og þrír særðust.

Að sögn lögreglu fór maðurinn, sem er 49 ára gamall og býr í bænum Sete, til nágrannans sem hélt afmælisveislu sína á neðri hæðinni og bað hann að lækka í tónlistinni. Þegar nágranninn neitaði hótaði skotfimikennarinn að fara yfir í sína íbúð „og koma til baka og drepa ykkur“.

Hann stóð við hótunina og kom aftur klukkan tvö um nóttina vopnaður byssu og hóf skothríð. Þegar sumir veislugesta lögðu á flótta elti hann þá uppi á stigaganginum og fyrir utan húsið og skaut þá. Einum hina særðu tókst að hringja eftir aðstoð lögreglu.

Alls særðust þrír karlar og ein kona og lést eitt fórnarlambanna af sárum sínum á sjúkrahúsi í dag. Konan er sögð milli heims og helju. Barn sem lá sofandi í íbúðinni slapp ómeitt og sömuleiðis ungt par sem skreið undir borð og faldi sig þar meðan maðurinn gekk berserksgang.

Lögreglan lýsir árásarmanninum sem einstæðingi. Eftir árásina sneri hann aftur á heimili sitt og sýndi lögreglu ekkert viðnám þegar hann var handtekinn. Maðurinn sagðist vera á lyfjum vegna svefnleysis í kjölfar breytinga á vinnutíma hans fyrir 18 mánuðum, sem gerðu það að verkum að hann þurfti að vakna kl. fjögur alla morgna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert