Gruna Sýrlandsher um að undirbúa efnavopnaárás

Frá Sýrlandi. Óttast er að Sýrlandsher undirbúi efnavopnaárás.
Frá Sýrlandi. Óttast er að Sýrlandsher undirbúi efnavopnaárás. AFP

Margt þykir benda til þess að Sýrlandsher undirbúi efnavopnaárásir. Bandarískur embættismaður segir fregnir hafa borist af því að herinn láti nú blanda fyrir sig efnablöndur til að nota í þessu skyni.

„Við höfum fengið þó nokkrar vísbendingar sem leiða líkum að því að þeir séu að blanda saman efnum,“ sagði embættismaðurinn í samtali við AFP-fréttastofuna og sagði líklegt að um væri að ræða sarín, sem er lífrænt fosfórsamband sem truflar taugastarfsemi. Örlítið magn þarf til þess að efnið verði mönnum að bana við innöndun.

Fyrr í dag greindi bandaríska fréttastöðin CNN frá því að stjórn Assads Sýrlandsforseta væri nú að íhuga að koma saríni fyrir inni í sprengjum til að nota í takmörkuðu magni gegn uppreisnarmönnum.

Færi svo að Sýrlandsstjórn fyrirskipaði notkun efnavopna myndi það hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Í gildi er alþjóðlegt bann við notkun þeirra, verði það brotið er hætt við hörðum og skjótum viðbrögðum alþjóðasamfélagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert