Sjö sjálfsvíg í fangabúðunum

Frá Guantanamo fangabúðunum
Frá Guantanamo fangabúðunum AFP

Sjö hafa framið sjálfsvíg í fangabúðum bandaríska hersins við Guantanamo flóa á Kúbu. Enn eru fangar í búðunum sem hafa verið þar í haldi í ellefu ár án réttarhalda.

Þremur mánuðum eftir að Adnan Farhan Abdul Latif fannst látinn í klefa sínum hefur andlát hans verið úrskurðað sjálfsvíg og hefur verið hafin rannsókn á sjálfsvígi hans innan hersins.

Lögfræðingur Latif kveðst vilja fá skýringar á ýmsu. Meðal annars hvernig fanga tókst að taka eigið líf með ofneyslu lyfja í öryggisfangelsi. Eins hvers vegna fangi sem þjáist af bráða lungnabólgu er látinn dvelja í klefa sínum án læknisþjónustu. „Ef þetta var sjálfsvíg þá naut hann aðstoðar við sjálfsvígið,“ segir hann.

Fréttir hafa borist af því að fangar hafi fundið ýmsa oddhvassa hluti í klefum sínum, svo sem skæri og annað slíkt að sögn lögmannsins, David Remes.

Hann segir að Latif hafi verið þekktur sem erfiður fangi og hafi verið meðal fanga sem var refsað fyrir að kasta þvagi á fangaverði.  Remes segir að þunglyndi hrjái marga fanga í Guantanamo sem ekki sé skrýtið þegar fólki er haldið í fangabúðum í ellefu ár án réttarhalda. Hann er verjandi fimmtán Jemena í búðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert