Brennandi hundur vekur reiði í Suður-Kóreu

Hundar eru af mörgum taldir bestu vinir mannsins. Misþyrming á …
Hundar eru af mörgum taldir bestu vinir mannsins. Misþyrming á hundi í Suður-Kóreu hefur vakið mikla reiði. Myndin er úr myndasafni. AFP

Myndband af hundi í ljósum logum, sem hleypur í angist sinni yfir bílaplan, hefur vakið mikla reiði í Suður-Kóreu, þar sem það var sýnt í sjónvarpinu um helgina. Miklar umræður hafa verið um atvikið á samfélagsmiðlum og margir krefjast þess að þeir sem kveiktu í hundinum verði látnir svara til saka.

Eftir að hafa hlaupið um bílaplanið hljóp hundurinn inn í bílskúr og kveikti þar í.

Dýraverndunarsamtök í landinu hafa lofað háum verðlaunum til þeirra sem geta gefið upplýsingar um hverjir voru þarna að verki. „Hvað sem þeim gekk til; hvort sem þeir ætluðu að drepa, borða eða misþyrma hundinum, þá getum við ekki liðið þetta undir neinum kringumstæðum,“ segir talsmaður samtakanna.

Hundaát tíðkast í Suður-Kóreu, en sífellt fleiri landsmenn fordæma þann sið og segja hann vera landi og þjóð til skammar í alþjóðasamfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert