Ættingjar fá ekki að vita dánarorsök

Við gasvinnslustöðina In Amenas í Alsír.
Við gasvinnslustöðina In Amenas í Alsír. AFP

Búist er við því að fregnir berist síðar í dag af afdrifum þeirra þriggja Norðmanna sem enn er saknað eftir gíslatökuna í Alsír í síðustu viku. Fimm var saknað, en í morgun tilkynntu norsk yfirvöld að borin hefðu verið kennsl á lík tveggja þeirra.  Aðstandendur fá ekki að vita að sinni hvernig dauða þeirra bar að.

Þetta segir yfirmaður hóps norskra sérfræðinga, sem staddur er í Alsír til að leita Norðmannanna. 

Sérfræðingarnir eru á vegum Kripos, norsku rannsóknarlögreglunnar og eru sérþjálfaðir í að bera kennsl á látið fólk. Um miðjan daginn í gær fengu þeir aðgang að líkum allra þeirra sem létust í gíslatökunni, þegar hópur íslamskra vígamanna réðst á  gasvinnslustöðina In Amenas í Alsír þar sem norska olíufélagið Statoil er með starfsemi.

Yfirmaður hópsins, Per Angel,  segir í samtali við Aftenposten í dag að þeir geti borið kennsl á fólkið, óháð því í hvaða ástandi líkin séu. Spurður að því hvort aðstandendur fái að vita hvernig dauða mannanna bar að segir hann svo ekki vera. „Nei, þau fá ekki að vita við hvaða aðstæður þeir létust. En þau munu fá að vita það eftir nokkurn tíma.“

Fyrr í dag gaf norska utanríkisráðuneytið út yfirlýsingu þess efnis að ólíklegt væri að þeir þrír sem enn er saknað myndu finnast á lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert