Meintir islamistar gripnir í Frakklandi

Maður rótar í rústum húsa sem franskar orrustu þotur grönduðu …
Maður rótar í rústum húsa sem franskar orrustu þotur grönduðu er bærinn Douentza var endurheimtur úr klóm íslamista. mbl.is/afp

Franska lögreglan handtók fjóra menn í dag sem tengjast sveitum íslamista í Malí, að sögn innanríkisráðuneytisins í París. Þeir voru gómaður skammt frá höfuðborginni í rannsókn á meintum tilraunum al Qaeda sveita í Malí til að afla sér fylgismanna í Frakklandi.

Þrír mannanna eru fransk-kongólskir en sá fjórði frá Malí.

Hernaðaraðgerðir Frakka í þeim tilgangi að hrekja bardagasveitir íslamista frá Malí hafa orðið til þess að öryggisráðstafanir til að sporna við hugsanlegum hermdarverkum í Frakklandi hafa verið stórauknar.

Dómari sem stýrir rannsókninni á meintri starfsemi al Qaedaliða í Frakklandi segir að ef menn ætli sér að berjast gegn hinni nýju öryggisógn innan eigin landamæra þurfi að koma til miklu öflugra eftirlit lögreglu, skipti á njósnagögnum og geta til að lauma sér inn í litla róttæka hópa íslamista.

Sérfræðingar segja að aðgerðir franska hersins í Malí sé fyrir íslamista hvati til árása á Frakkland eða franska hagsmuni. „Frakkland er skotspónn sem stendur,“ segir Anne Giudicelli, ráðgjafi hjá Terrorisc, stofnun sem sérhæfir sig í þjóðaröryggismálum.

„Frakkland er sakað um að vilja leggja undir sig lönd múslima og það eitt gæti ýtt einhverjum einstaklingum til aðgerða, eða hvetja aðra til að mynda með sér samtök,“ bætir hún við í samtali við Reutersfréttastofuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert