Kerry byrjar heimsreisuna

John Kerry, nýskipaður utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lenti í London í dag en þar hefst fyrsta opinbera ferð hans sem ráðherra. Kerry mun á næstu dögum fara sannkallaða maraþonferð milli helstu samstarfsríkja í Evrópu og Mið-Austurlöndum.

Á morgun mun Kerry hitta David Cameron forsætisráðherra og William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, áður en hann heldur áfram för sinni til Þýskalands, Frakklands, Ítalíu, Tyrklands, Egyptalands, Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Katars.

Búist er við því að hann muni ræða viðkvæma stöðu mála í Sýrlandi, Malí og Norður-Kóreu.

Sú ákvörðun Kerrys að hefja sína fyrstu ferð í Evrópu, ólíkt forvera hans Hillary Clinton sem heimsótti fyrst ríki Asíu og Kyrrahafsins, sendir sterk skilaboð til nánustu bandamanna Bandaríkjanna í Evrópu, að sögn háttsetts embættismanns í utanríkisráðuneytinu.

„Ég tel að þetta endurspegli hve mikla áherslu við leggjum á samvinnu í heimsmálum með þessum lykilfélögum okkar,“ hefur Afp eftir embættismanninum.

Kerry er ekki alls ókunnugur á þessum slóðum, því sem sonur diplómata varði hann stórum hluta bernsku sinnar í Berlín auk þess sem hann á fjölskyldu í Frakklandi. Hann hefur verið ötull talsmaður sterkra tengsla milli Bandaríkjanna og Evrópu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert