„Mannætulöggan“ ætlaði að láta til skrarar skríða

Gilberto Valle er kallaður mannætulöggan. Ekki er þó sannað að …
Gilberto Valle er kallaður mannætulöggan. Ekki er þó sannað að hann hafi étið mann.

Stórundarlegar færslur lögreglumanns frá New York á netinu voru ekki eingöngu hugarórar heldur settar fram í fullri alvöru. Maðurinn ætlaði að ræna, pynta, drepa og éta konur. Þetta kom fram í máli saksóknara í máli „mannætulöggunnar“ svokölluðu en réttarhöldin hófust í dag.

„Verið alveg viss, Gilberto Valle var full alvara með þessari ráðagerð,“ sagði aðstoðarsaksóknarinn Randall Jackson við kviðdóminn í ræðu sinni í dag.

Verjandi Valle, Julia Gatto, sagði hins vegar að skjólstæðingur sinn hefði aldrei ætlað að framkvæma áætlanirnar. „Það er ekki hægt að dæma fólk fyrir hugsanir þess, jafnvel þó að þær fylli þig viðbjóði.“

Mál mannætulöggunnar er að flestu leyti óvenjulegt og hefur því vakið gríðarlega athygli. Réttað er í málinu á Manhattan.

Valle, 28 ára, er ákærður fyrir að leggja á ráðin um að ræna konu og fyrir að nota í heimildarleysi gagnagrunn lögreglunnar. Saksóknari segir að hann hafi notað gagnagrunninn til að leita að hugsanlegum fórnarlömbum.

Verði hann fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Eiginkonur ekki vænleg fórnarlömb

Valle er faðir ungs barns og vel menntaður. Hann lifði hversdagslegu lífi þar til hann byrjaði að haga sér mjög undarlega, sagði Jackson.

Eiginkona hans áttaði sig á að eitthvað væri að. Hún setti því forrit í tölvuna til að rekja slóð hans á netinu. Í ljós kom að Valle ræddi ítarlega um áætlanir sínar um að ræna, pynta og éta konur. Um að skera þær á háls og steikja þær á teini.

Eiginkonan tilkynnti þessar áætlanir eiginmannsins til alríkislögreglunnar, FBI, í fyrra. FBI segist hafa komist að því að Valle ætlaði að ræna, nauðga og éta konur og að áætlanirnar væru raunverulegar.

Saksóknarinn sagði það algjörlega út í hött að reyna að halda því fram að Valle hefði aðeins verið að láta sig dreyma og hefði aldrei ætlað að fylgja ráðagerðum sínum eftir.

Að sögn saksóknarans gerði Valle tilraunir til að hafa samband við hugsanleg fórnarlömb sín, m.a. grunnskólakennara í New York. Hann safnaði upplýsingum um störf þeirra og einkalíf. Þá hafði Valle m.a. leitað sér upplýsinga um hvernig reipi væri best að nota og um uppskriftir til að elda fórnarlömbin eftir.

Verjandinn Gatto sagði hins vegar að engin sönnunargögn væru til staðar um að glæpur hefði verið framinn. Því væru ákærurnar innistæðulausar.

Hún sagði að Valle hefði alltaf haft unun af óvenjulegum hlutum, m.a. tilhugsuninni um að sjóða konu með epli í munninum. Benti hún á að á sumum vefsíðanna sem Valle heimsótti væru þúsundir manna að segja frá hugarórum sínum um að kæfa konur og éta þær.

 Eiginkona Valle verður fyrsta vitni saksóknarans. Í Bandaríkjunum banna lög mökum að uppljóstra um einkasamtöl við maka sína. Því mun vitnisburður hennar eingöngu fjalla um það sem hún komst að með því að setja njósnabúnað í tölvu Valle.

Einkonan flúði heimili þeirra hjóna síðasta haust er hún komst á snoðir um að hún væri hugsanlegt fórnarlamb eiginmannsins. Verjendur hans segja að Valle neiti því, eiginkona væri ekki álitleg í hlutverk fórnarlambs í hugarórum um mannrán og mannát.

Valle mun sjálfur einnig bera vitni í málinu.

Geðlæknir sem AP-fréttastofan ræddi við sagði að hugarórar um mannát væru ekki algengir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert