Frjálslyndi flokkurinn sigraði í aukakosningum

Mike Thornton frambjóðandi Frjálslynda flokksins fagnaði þegar úrslitin lágu fyrir.
Mike Thornton frambjóðandi Frjálslynda flokksins fagnaði þegar úrslitin lágu fyrir. BEN STANSALL

Frambjóðandi Frjálslynda flokksins sigraði í aukakosningum sem fóru fram í Bretlandi í gær. Frambjóðandi Ukip (breska Sjálfstæðisflokksins) fékk næstflest atkvæði, en frambjóðandi Íhaldsflokksins varð þriðji.

Kosningin fór fram í Eastleigh, en Chris Huhne neiddist til að segja af sér þingmennsku eftir að upplýst var að hann hefði afvegaleitt lögreglu með því að koma hraðasekt yfir á konu sína. Hann var þingmaður Frjálslynda flokksins.

Sigur Frjálslynda flokksins í Eastleigh þykir mikilvægur fyrir flokkinn. Nick Clegg, formaður flokksins, hefur átt í vök að verjast síðustu daga eftir fram komu ásakanir um að flokkurinn hefði tekið slælega á ásökunum nokkurra kvenna um að fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins hafi gerst sekur um kynferðislega áreitni.

Árangur Ukip þykir einnig staðfesta að flokkurinn er alvarleg ógnun við stöðu Íhaldsflokksins. Ukip hefur lagt megináherslu á andstöðu við veru Breta í Evrópusambandinu. Sjónarmið flokksins í Evrópumálum njóta mikils fylgis í Bretlandi um þessar mundir. Þingmenn Íhaldsflokksins eru klofnir í Evrópumálum og hefur David Camerone forsætisráðherra tekið af skarið um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um veru Breta í sambandinu árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert