Fraus til bana við að verja dóttur sína

Mikið fannfergi var í norðurhluta Japans um helgina.
Mikið fannfergi var í norðurhluta Japans um helgina. AFP

Faðir fraus til bana um helgina eftir að hafa varið níu ára gamla dóttur sína í óveðri sem gekk yfir norðurhluta Japans. 

Fyrir tveimur árum missti stúlkan móður sína úr óþekktum sjúkdómi, að því er fram kemur í fréttum japanskra fjölmiðla.

Mikio Okada lést er hann reyndi að verja einkabarn sitt, Natsune, í aftakaveðri á Hokkaido eyju. Náði vindhraðinn rúmum 30 metrum á sekúndu í sex stiga frosti á þessum slóðum á laugardag. Níu létust í óveðrinu á eyjunni um helgina.

Natsune var vafin í jakka föður síns en hún fannst í örmum látins föður á sunnudag. Þá hafði ekkert spurst til þeirra síðan síðdegis á laugardag er Okada sótti dóttur sína í skólann. Okada hringdi í ættingja þegar hann var á heimleið en hann hafði fest bifreiðina í snjó skammt frá heimili sínu. Sagði hann að þau feðgin myndu ganga heim síðasta kílómetrann en þau fundust síðan í gær í einungis 300 metra fjarlægð frá bifreiðinni.

Okada hafði reynt að verja dóttur sína fyrir óveðrinu og slapp hún ótrúlega vel en ekkert amaði að henni þegar hún fannst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert