El País biðst afsökunar á pistli

AFP

Spænska dagblaðið El País dró til baka pistil þar sem Angelu Merkel, kanslara Þýskalands var líkt við Adolf Hitler. Biður blaðið afsökunar á að hafa birt dálkinn en dálkurinn var harðlega gagnrýndur á netinu eftir að hann birtist.

Pistillinn er eftir hagfræðinginn Juan torres Lopez sem kennir við háskólann í Seville. Var hann birtur í vefútgáfu El País og í blaðinu sem dreift var í Andalúsíu. Sagði hagfræðingurinn í pistlinum að Merkel hafi, líkt og Hitler, gefið út stríðsyfirlýsingu gegn öðrum ríkjum álfunnar. Í þetta skipti væri það gert til þess að tryggja Þýskalandi lífsnauðsynlegt efnahagslegt rými.

„Hún refsar okkur til þess að vernda sín stórfyrirtæki og banka og eins til þess að fela  fyrir kjósendum það skammarlega kerfi sem hefur valdið því að fátækt hefur aukist í hennar eigin ríki og hefur ekki verið jafn mikil í tuttugu ár, 25% af starfsfólki þénar minna en 9,15 evrur á klukkustund og helmingur þjóðarinnar á ... aumt 1% af öllum þjóðarauðnum,“ segir í pistli Lopez.

Í yfirlýsingu frá El País kemur fram að greinin Þýskaland gegn Evrópu hafi verið tekin út af vefnum þar sem í greininni komi fram fullyrðingar sem blaðið telur óviðeigandi. Um sé að ræða skoðanir Lopez ekki blaðsins.

Þjóðverjar brugðust ókvæða við á Twitter og fleiri samskiptavefjum og meðal þeirra sem tjá sig eru blaðamenn þýskra blaða sem tala um að nú hafi El País bæst í þann hóp sem líki Merkel við Hitler. Slíkt sé fáránlegt og lágkúrulegt. Auðvitað sé Merkel ekki hafin yfir gagnrýni en að líkja henni við Hitler sé einfaldlega heimskulegt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert