Miðflokkurinn vill Noreg úr Schengen

Liv Signe Navarsete.
Liv Signe Navarsete.

Norski Miðflokkurinn, Senterpartiet, hefur gert það að einu helsta baráttumáli sínu að Noregur hætti í Schengen-samstarfinu og segir aðildina hafa aukið glæpatíðni. Liv Signe Navarsete, formaður flokksins, segir þetta verða eitt af helstu kosningamálunum, en kosið verður til þings í Noregi í haust. 

Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, gefur lítið fyrir þessar yfirlýsingar og segir harla ólíklegt að Noregur muni yfirgefa Schengen-svæðið í bráð. „Það verður engin ríkisstjórn mynduð sem mun hafna Schengen. Allir vita það,“ segir Barth Eide í samtali við Aftenposten.

Miðflokkurinn staðhæfir að fylgni sé á milli aðildar Noregs að Schengen-svæðinu og aukinnar tíðni glæpa útlendinga í Noregi. Barth Eide er þessu ekki sammála. „Landamæragæslan kemur þessu ekkert við. Það stendur ekki „bankaræningi“ í vegabréfi nokkurs manns og það er enginn sem segir við landamærastöð að hann sé kominn til landsins í þeim tilgangi að fremja glæp,“ segir hann.

Hann bendir ennfremur á að færi svo, að Noregur segði sig frá Schengen-samstarfinu, þá hefði landið ekki lengur aðgang að sameiginlegu upplýsingakerfi svæðisins, sem m.a. er notað til að lýsa eftir glæpamönnum. Þá hefðu norsk yfirvöld heldur ekki upplýsingar um hvort fólk hefði brotið lög í öðrum Schengen-löndum eða hvort þeim hefði verið vísað frá þeim.

Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs.
Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert