Harry prins vill fara á suðurpólinn

Harry prins tók þátt í leiðangri á norðurpólinn árið 2011.
Harry prins tók þátt í leiðangri á norðurpólinn árið 2011.

Búist er við því að Harry Bretaprins tilkynni fljótlega að hann ætli að taka þátt í leiðangri fyrrverandi hermanna sem slösuðust í Afganistan á suðurpólinn. Menn sem taka þátt í leiðangrinum æfðu sig fyrir ferðina á Íslandi í vor.

Breska blaðið Mail on Sunday segir frá því í dag að búist sé við því að Harry tilkynni fljótlega að hann ætli að taka þátt í leiðangrinum. Í mars 2011 tók Harry þátt í ferð á norðurpólinn, en hann þurfti frá að hverfa til að mæta í brúðkaup bróður síns.

Hermennirnir sem taka þátt í leiðangrinum eru á vegum Walking With The Wounded góðgerðasamtakanna, sem starfa undir verndarvæng Harry prins. 18 hermenn frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada taka þátt í leiðangrinum.

Hermennirnir eiga það sameiginlegt að hafa særst í Afganistan. Sumir hafa misst fætur og einn leiðangursmanna er blindur. Sex eru í breska liðinu, en þeir eru samtals með aðeins sex fætur.

Hópurinn var í þjálfun á Langjökli í mars, eins og fram kom á mbl.is.

Guy Disney segir í samtali breska blaðið Telegraph, að hann viti að Harry hafi mikinn áhuga á að vera með í þessari ferð. Hann sé hermaður og hafi barist í Afganistan. Það sé mjög gott að hafa hann með því hann sé góður félagi.

Ferðalagið hefst í desember, en tilkynnt verður formlega í næstu viku hvernig staðið verður að ferðinni á suðurpólinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert