Gæti átt yfir höfði sér dauðarefsingu

Dzhokhar Tsarnaev.
Dzhokhar Tsarnaev.

Hinn 19 ára Dzhokhar Tsarnaev, sem talinn er hafa staðið fyrir sprengjuárásinni á Boston-maraþonið fyrir viku ásamt bróður sínum, hefur verið ákærður fyrir að hafa beitt gjöreyðingarvopni („weapon of mass destruction“). Verði hann fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér dauðarefsingu að því er segir í frétt AFP.

Þá hefur Tsarnaev einnig verið ákærður fyrir að hafa valdið eignatjóni, samkvæmt tilkynningu frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu. Réttahöld yfir honum hefjast 30. maí næstkomandi. Óvíst er þó hvort Tsarnaev verður viðstaddur þau en hann liggur alvarlega slasaður á sjúkrahúsi vegna skotsára sem hann hlaut þegar hann var handtekinn af lögreglu um helgina.

Eldri bróðir Tsarnaev, Tamerlan, lét lífið í skotbardaga við lögreglu fyrir helgi. Þrír létu lífið í sprengjuárásinni og um 180 særðust. Þá skutu bræðurnir einn lögreglumann til bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert