Breti játar morðhótanir á Facebook

mbl.is/afp

Breskur maður játaði í dag þá sök, að hafa hótað á Facebokk að drepa 200 börn í bandarískum skóla. Hótunin hratt af stað gríðarlegum öryggisráðstöfunum sem m.a. fólust í því að þúsundum nemenda var gert að yfirgefa ekki heimili sitt.

Maðurinn, Reece Elliot, er 24 ára eins barns faðir frá bænum South Shields í Norðaustur-Englandi. Hótanir sínar birti hann á síðu sem helguð var táningi í Tennessee-ríki, Caitlin Talley, sem beið bana í bílslysi.

„Pabbi minn á þrjár byssur. Ég ætla að kála honum fyrst og losa mig við líkið í sorpinu. Síðan tek ég mótorhjólið og fer hratt. Vonandi drep ég að minnsta kosti 200 áður en ég tek svo mitt eigið líf. Viljirðu láta vita, þá er ég á leiðinni,“ skrifaði Elliot undir fölsku nafni á síðuna.

Bandaríska alríkislögreglan og innanlandsöryggisstofnun Bandaríkjanna röktu slóðina og gaf 
Elliot sig fram við lögreglu í febrúar. Var hann handtekinn þegar í stað en mál hans er fyrir rétti í Newcastle.

Efnt hefur verið til aukinna öryggisráðstafana í kjölfar á fjöldamorði í bænum Newtown. Í því andrúmslofti var skólum í Warrensýslu lokað í framhaldi af hótunum Elliot. Er hann gaf sig fram sagðist Elliot vera „nettröll“ og ritað hótanirnar til að kanna hvers konar viðbrögð hann fengi við þeim.

„Hann bjóst ekki við að hótarnirnar yrðu teknar jafn alvarlega og bjóst ekki við þeim  viðbrögðum sem þær framkölluðu,“ segir Gary Buckley, fulltrúi saksóknara í Newcastle.

Eftir vitnaleiðslur fyrir dómi í dag var ákveðið að dómsuppkvaðning færi fram í júní. Dómarinn, James Goss, varaði Elliot við því í morgun, að óhjákvæmilega fengi hann fangelsisdóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert