Raunverulegur möguleiki á friði

Forseti Ísraels, Shimon Peres, hvatti til þess í dag að reynt væri að finna leiðir til þess að tryggja frið á milli Ísraela og Palestínumanna og tímanum vel varið í þeim efnum. Sagði hann við blaðamenn að raunverulegur möguleiki væri á því að koma á friði en hann er staddur á Alþjóða efnahagsþinginu (World Economic Forum) í Jórdaníu.

„Við verðum að sigrast á tortryggni og efasemdum,“ sagði hann. Lausnin lægi fyrir og fælist í friðsamlegum samskiptum Ísraelsríkis og ríkis Palestínumanna. Sú niðurstaða væri öllum aðilum málsins í hag. En nota yrði tímann vel til þess að vinna að því markmiði. Snúa yrði aftur að samningaborðinu og semja um frið á grundvelli tveggja ríkja fyrir tvær þjóðir sem ættu í vinsamlegum samskiptum og samvinnu með hag framtíðarkynslóða í huga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert