Kúba segir vopnin „úrelt“

Stjórnvöld í Kúpu hafa lýst því yfir að vopn sem strandgæslan í Panama fann um borð í flutningaskipi frá N-Kóreu séu í þeirra eigu. Um sé að ræða úrelt vopn frá tímum Sovétríkjanna sem senda hafi átt til N-Kóreu til viðgerðar.

Strandgæslan í Panama fann vopnin í flutningaskipi, en skipið var tekið til skoðunar vegna gruns um að fíkniefni kynnu að vera um borð. Í skipinu 10 þúsund tonn af sykri. Undir sykurfarminum reyndust hins vegar vera mikið af vopnum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sett vopnasölubann á N-Kóreu vegna kjarnorkutilrauna N-Kóreumanna.

Utanríkisráðuneyti Kúbu segir í yfirlýsingu að Kúbumenn virði alþjóðlega samninga og fylgi friðarstefnu og afvopnun í kjarnorkumálum.

Í yfirlýsingunni segir að í skipinu frá N-Kóreu hafi verið 240 tonn af úreltum vopnum frá tímum Sovétríkjanna, þar á meðal tvær flugvélaeldflaugar, níu ósamsettar eldflaugar, tvær MIG 21 orrustuflugvélar og 15 MIG mótorar. Vopnin hafi verið framleidd um miðja 20. öld.

Sterk tengsl eru milli Kúbu og N-Kóreu, en kommúnistar eru við völd í báðum löndunum. Í júní heimsótti hópur hershöfðingjar í N-Kóreu Kúbu. Raul Castro, forseti Kúbu, tók á móti honum.

Skipið sem flutti sykurinn og vopnin lagði af stað frá N-Kóreu 17. apríl. Það sigldi í gegnum Panamaskurðinn og kom til Kúbu í lok maí. 1. júlí lagði það af stað frá Havana, en var stöðvað  við Panama 12. júlí. Eftir að leit hófst í skipinu gerði skipstjóri skipsins tilraun til sjálfsmorðs. 34 menn eru í áhöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert