Úthúðað vegna trúar í viðtali

Skjáskot af Youtube

Reza Aslan er fræðimaður með doktorsgráðu í trúarbragðafræði frá háskólanum í Kaliforníu. Á dögunum skrifaði hann bókina Zealot: Líf Jesú frá Nasaret.

Í kjölfar útgáfu bókarinnar var hann fenginn í viðtal í netþætti fréttastöðvarinnar Fox News, Spirited Debate. Umræður þáttarins reyndust að litlu leyti snúast um efni bókarinnar, heldur snerist viðtalið upp í síendurteknar spurningar og gagnrýni á að Aslan, sem er múslimi, skuli hafa skrifað bók um kristna trú. Spyrillinn kallaði hann meðal annars hlutdrægan og sakaði hann um áróður.

Netverjum þykir Aslan hafa sýnt mikla þolinmæði þar sem hann margítrekaði að bókin væri alls ekki hugsuð sem áróðurstæki múslima heldur sem fræðileg úttekt doktors í trúarbragðafræði á lífi Jesú frá Nasaret.

„Ég tel það ósanngjarnt að draga þá ályktun út frá trú minni að bók mín hafi einhvern dulinn tilgang. Það er eins og að segja að kristinn fræðimaður geti vegna trúar sinnar alls ekki skrifað bók um Múhammeð spámann,“ sagði Aslan.

Viðtalið má sjá hér að neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert