Kastaði sprengju og skaut fjóra til bana í Texas

Úr safni.
Úr safni. AFP

Fjórir eru látnir og fjórir særðust þegar karlmaður gekk berserksgang í Texas í gærkvöldi. Maðurinn, sem var vopnaður skotvopni, réðist á tvö heimili og kastaði m.a. sprengju. 

Ekki kom til átaka á milli mannsins og lögreglu þegar hann var handtekinn á heimili í úthverfinu DeSoto. Lögreglan segir að hann hafi verið steini lostinn og hafi m.a. muldrað nafn sitt og tign sína innan hersins. Lögreglan hefur ekki gefið upp nafn árásarmannsins eða hvort hann sé fyrrverandi hermaður. 

Talsmaður lögreglunnar segir að málið tengist fjölskyldudeilu. Hún fékk símtal seint í gærkvöldi þar sem eldri kona hafði áhyggur af dóttur sinni. Lögreglumenn fóru á heimili hennar í Dallas þar sem konan, sem var 43 ára, og 17 ára gömul dóttir hennar fundust látnar. Fjórtán ára gamall sonur hennar og önnur 17 ára stúlka, sem var í heimsókn, voru lifandi en höfðu særst.

Lögreglan var í framhaldinu beðin um að kanna aðstæður á öðru heimili í úthverfinu DeSoto og þegar lögreglumenn voru á leiðinni þangað barst símtal frá barni sem grátbað um aðstoð. 

Þegar þangað var komið, um kl. 22:45 að staðartíma, fann lögreglan lík tveggja kvenna sem höfðu verið skotnar til bana. Þá hafði árásarmaðurinn skotið og sært tvo drengi sem eru 13 og 11 ára gamlir. 

Fjölmiðlar í Texas segja að árásarmaðurinn sé fyrrverandi kennari og dansari í klappstýrusveit bandaríska körfuboltaliðsins Dallas Mavericks, en umrædd sveit er aðeins skipuð karlmönnum.

Fram kemur að hann hafi skotið kærustu sína og dóttur hennar til bana á heimili þeirra í Dallas áður en hann ók að heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar í DeSoto. Það liggur hins vegar ekki fyrir hvort eiginkonan fyrrverandi sé á meðal þeirra sem létust. 

Þá segja fjölmiðlar að hann hafi notað handsprengju í árásinni í DeSoto. Lögreglan segist hins vegar ekki geta staðfest hvers konar sprengja hafi verið notuð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert