88 ára barinn til bana af handahófi

Delbert Belton var fyrrum bandarískur hermaður.
Delbert Belton var fyrrum bandarískur hermaður. AFP

Tæplega níræður fyrrum hermaður frá Bandaríkjunum var barinn til bana af tveimur unglingsstrákum fyrir utan poolstofu í Spokane í Washington-ríki á miðvikudagskvöldið. Samkvæmt lögreglu virðist fórnarlambið hafa verið valið af handahófi og er ástæða morðsins með öllu ókunn.

Maðurinn hét Delbert Belton og var 88 ára gamall. Hann gegndi herþjónustu í Kyrrahafinu í síðari heimsstyrjöldinni og var skotinn í fótinn í orrustunni við Okinawa, en lifði af.

Á miðvikudagskvöldið var hann á leið á sína eftirlætis poolstofu, Eagles Lodge þegar ráðist var á hann og fannst hann síðar um kvöldið á bílastæði með alvarlega höfuðáverka. Hann lést af sárum sínum á fimmtudeginum.

„Þetta virðist hafa verið handahófskennt,“ sagði lögregluþjónn í Spokane. „Svo virðist sem ráðist hafi verið á hann á bílastæðinu og eru engar vísbendingar um að hann hafi þekkt árásarmennina áður en árásin átti sér stað.“

Er þetta í annað skiptið í þessari viku sem að því er virðist tilefnislaus árás táninga verður manni að bana, en tveir bandarískir unglingar voru ákærðir á þriðjudag fyrir að skjóta ástralskan hafnarboltaspilara í bakið í smábænum Duncan í Oklahoma-ríki í Bandaríkjunum af einskærum leiða.

Árásarmennirnir hafa enn ekki fundist en vitni lýsti þeim sem tveimur ungum blökkumönnum.

CNN segir frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert