Fyrrverandi forseti ákærður í Þýskalandi

Christian Wulff
Christian Wulff AFP

Fyrrverandi forseti Þýskalands, Christian Wulff, verður ákærður fyrir fjárdrátt, samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneyti Þýskalands. Er hann fyrsti forseti Þýskalands sem er saksóttur en réttarhöldin hefjast í byrjun nóvember.

Wulffs er ákærður fyrir að hafa þegið það að vinur hans, kvikmyndaframleiðandinn David Groenewold, greiddi fyrir hann hluta hótelreiknings þegar hann dvaldi í borginni München þegar októberbjórhátíðin stóð sem hæst árið 2008. Á móti veitti hann kvikmyndaframleiðandanum stuðning við kvikmyndaverkefni er Wulff gegndi starfi forsætisráðherra Neðra-Saxlands.

Wulff heldur því fram að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að hluti reikningsins hafi verið greiddur fyrir hann og að hann hafi endurgoldið Groenewold í reiðufé síðar.

Wulff sagði af sér í febrúar 2012 eftir að saksóknarar báðu þingið um að svipta hann friðhelgi sem forseta til að þeir gætu rannsakað ásakanir um að hann hefði misnotað stöðu sína í ágóðaskyni sem forsætisráðherra Neðra-Saxlands á árunum 2003-2010. Komið hefur í ljós að Wulff fékk lán að andvirði hálfrar milljónar evra frá eiginkonu auðugs verktaka til að borga fyrir húsnæði árið 2008. Wulff reyndi að leyna þessu og hafði í hótunum við ritstjóra dagblaðsins Bild til að reyna að koma í veg fyrir að blaðið skýrði frá húsnæðisláninu.

Wulff var í mjög nánum tengslum við fleiri auðmenn sem eru sagðir hafa gert honum fleiri greiða, m.a. borgað fyrir sólarlandaferðir hans.

Þegar Wulff var forsætisráðherra Neðra-Saxlands var hann álitinn líklegur til að verða leiðtogi Kristilegra demókrata þegar fram liðu stundir. Talið er að ein af ástæðum þess að Angela Merkel valdi Wulff sem forsetaefni sé sú að kanslarinn hafi viljað losa sig við hugsanlegan keppinaut, með því að koma honum í valdalítið forsetaembættið. Sú ákvörðun Merkel að tefla Wulff fram var mjög umdeild og þótti til marks um að hún gæti ekki hafið sig yfir flokkslínur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert