Höfða mál vegna lekra PIP púða

Um 300 argentínskar konur sem fengu brjóstafyllingar frá franska PIP fyrirtækinu hafa höfðað skaðabótamál gegn þremur evrópskum fyrirtækjum, að sögn lögfræðings hópsins.

Virginia Luna, lögfræðingur kvennanna, segir að konurnar fari fram á 54,7 milljónir Bandaríkjadala, 6,6 milljarða króna, í bætur frá franska brjóstapúðaframleiðandanum Poly Implant Protheses (PIP), þýska gæðaeftirlitsfyrirtækinu TUV Rheinland og þýska tryggingafélaginu Allianz.

Að sögn Luna er talið að í Argentínu hafi 15 þúsund konur fengið brjóstafyllingar frá PIP og því sé ekki ósennilegt að fleiri konur muni bætast í hópinn.

Hún segir að meðal 500 kvenna sem skoðaðar hafi verið reyndust 19% þeirra vera með leka púða. Hafði silíkonið lekið og fannst meðal annars undir höndum, í hálsi, höfði og jafnvel lungum kvennanna.

Í Frakklandi hafa læknar fjarlægt PIP púða úr rúmlega 16 þúsund konum og virðist sem fjórðungur þeirra hafi lekið.

Stofnandi PIP, Jean-Claude Mas, hefur verið ákærður fyrir manndráp og fjársvik. PIP púðar eru bannaðir og fyrirtækið er farið í þrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert