Leggur til að glæpamenn geti borgað sig út úr fangelsi

Gina Rinehart
Gina Rinehart AFP

Ríkasta kona Ástralíu, Gina Rinehart, hefur lagt til að fangar sem ekki eru ofbeldishneigðir geti borgað sig út úr fangelsi og þannið orðið að skattgreiðendum sem hafi jákvæð áhrif á efnahagslíf landsins.

Þetta kemur fram í dálki sem hún ritar í Australian Resources and Investment tímaritið en auður Rinehart kemur úr námavinnslu sem hún erfði. Rinehart segir að landið þurfi á fleiri starfskröftum að halda á sama tíma og þjóðin eldist. Lausnin á því er að hennar mati að leyfa glæpamönnum að snúa aftur í atvinnulífið. Þannig geti ríkið aukið skatttekjur sínar.

Leyfum þeim að borga sig út úr fangelsi, segir Rinehart í pistlinum og bendir á nýja auðlind, að láta dæmda glæpamenn greiða fyrir að þurfa ekki að afplána dóma.

Karl Blöndal ritaði grein um Rinehart í Morgunblaðið fyrr á árinu en þar kom fram að Gina Rinehart er í hópi þeirra, sem mest hafa hagnast á uppsveiflunni í Ástralíu. Hún er eigandi fyrirtækisins Hancock Prospecting og hefur vegur hennar farið vaxandi á umliðnum árum. Árið 2010 var hún ríkasta kona Ástralíu samkvæmt vikulega viðskiptablaðinu BRW, árið 2011 var hún ríkasti maður Ástralíu og 2012 ríkasta kona heims. Var auður hennar þá metinn á hartnær 30 milljarða dollara (3.788 milljarða króna).

Rinehart býr í Perth, höfuðborg Vestur-Ástralíuríkis. Hún er 58 ára ekkja og á fjögur börn.

Hancock hóf starfsævi sína sem bóndi, asbestnámamaður og málmleitarmaður í Pilbara í norðvesturhluta Ástralíu. Dag einn var hann á flugi á afskekktum slóðum í úrhelli, að því er sagan segir, og sá þá hvernig ryðrauður litur kom fram á blautum klettaveggjum. Liturinn var vísbending um járn. Hancock sneri aftur og varð þessi fundur upphafið að velgengni hans.

Gina var hans eina barn og feðginin voru mjög náin framan af. Hún fékk frá honum áhugann á námavinnslu og Pilbara. Gina giftist tvisvar, eignaðist tvö börn með fyrri manninum og tvö með þeim síðari, Frank Rinehart, bandarískum lögmanni, sem var 37 árum eldri en hún og hafði verið sviptur lögmannsréttindum í Bandaríkjunum fyrir skattsvik. Lang Hancock mun hafa verið tortrygginn í garð tengdasonarins frá upphafi og talið að hann ásældist fyrirtæki sitt. Ekki skánaði sambandið milli feðginanna þegar Hope Hancock, móðir Ginu, lést og faðir hennar tók saman við Rose Lacson, unga heimilishjálp frá Filippseyjum sem Gina hafði ráðið. Hancock kvæntist Larson, reisti henni höll, sem hann nefndi Prix d'Amour. Brúðkaupsferðin var heimsreisa í einkaþotunni hans.

Árið 1990 lést Frank Rinehart og tveimur árum síðar var Lang Hancock allur. Við tók 11 ára þref um eignir Hancocks milli Ginu og stjúpmóður hennar. Reyndi Gina meðal annars að færa sönnur á að hún hefði verið völd að dauða föður síns. Fjölmiðlar veltu sér upp úr málinu og var ekkert smáatriði of ómerkilegt til að smjatta mætti á því. Að lokum fékk Rose að halda nokkrum eignum, en Rinehart fékk öll yfirráð yfir Hancock Prospecting þar sem arðgreiðslurnar streymdu inn.

Rinehart tjáir sig reglulega um stjórnmálin í heimalandinu og er mjög í nöp við stjórn Verkamannaflokksins sem hún segir eyða óhóflega af fjármunum ríkisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert