Misch sá lík Hitlers

Rochus Misch var síðasti lífvörður Hitlers.
Rochus Misch var síðasti lífvörður Hitlers. JOHN MACDOUGALL

Rochus Misch, síðasti lífvörður Adolfs Hitlers, sá lík Hitlers eftir að hann framdi sjálfsmorð. Hann fylgdist einnig með þegar börnum Goebbels var byrlað eitur.

Eftir að Otto Gunsche lést árið 2003 var Misch síðasti lífvörður Hitlers á lífi. Hann lést í dag 96 ára að aldri.

Misch sagði í samtali við BBC að hann hefði vitað um útrýmingarbúðir nasista, en hann hefði ekki gert sér grein fyrir hversu víðtækar hreinsanir voru í gangi. Hann sagði að menn yrðu að hafa í huga að það yrði aldrei hægt að heyja stríð án þess að það væru framin glæpaverk.

Lífvörður í neðanjarðarbyrginu

Misch fylgdi Hitler á ferðum hans og stöð vörð við kanslarahöllina. Á síðustu vikum stríðsins kom Hitler sér fyrir í neðanjarðarbyrgi og þar sá Misch um að afgreiða símtöl. Hann segir að nóg hafi verið að gera hjá sér því Hitler hefði verið önnum kafinn við að gefa fyrirskipanir fram á síðasta dag.

Hitler sat við símann þegar Hitler framdi sjálfsvíg 30. apríl 1945. Hann segist ekki hafa heyrt byssuskot þegar Hitler drap sig. Einkaritari Hitlers hafii hins vegar gefið fyrirskipun um að opna hurð inn í herbergi Hitlers.

„Ég sá að Hitler hafði sigið niður og höfuð hans lá á borðinu. Eva Braun [eiginkona Hitlers] lá á sófa og snéri höfuð hennar í átt til hans,“ sagði Misch. „Hún hafði dregið hné sín í átt að bringunni. Hún var í bláum kjól með hvítum blúndum. Ég mun aldrei gleyma þessu.“

Fylgdist með þegar börn Goebbels voru tekin af lífi

Daginn eftir voru sex börn Joseph Goebbels, áróðursmálaráðherra, tekin af lífi. Þeim var gefið morfín og síðan blásýra. Móðir þeirra, Magda Goebbels, sá um að framkvæma aftöku barnanna.

Misch segir að engum hafi verið hleypt inn til Goebbels-hjónanna, en allir í neðanjarðarbyrginu hafi vitað hvað var í gangi. Hann segir að Ludwig Stumpfegger, læknir Hitlers, hafi hjálpað Magda Goebbels við að myrða börnin.

„Allir vissu hvað var í gangi. Eftir um eina eða tvær klukkustundir kom frú Goebbels út. Hún var grátandi. Hún settist við borð og byrjaði að leggja kapal.“

Síðar um kvöldið frömdu Goebbels-hjón sjálfsvíg.

Á heimasíðu Misch segir: „Ég heiti Rochus Misch. Ég er ekki merkilegur maður, en ég hef orðið vitni að merkilegum atburðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert