Sýrlandsstjórn afhendi efnavopn

Rússnesk stjórnvöld hafa beðið yfirvöld í Sýrlandi um að afhenda öll efnavopn, en Rússar vilja að alþjóðlegir aðilar fái vopnin í hendur og að þeir sjái til þess að þeim verði eytt. Stjórnvöld í Rússlandi vilja með þessu koma í veg fyrir hernaðaríhlutun Bandaríkjanna.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segist hafa komið þessu framfæri við utanríkisráðherra Sýrlands. Hann vonast eftir skjótum svörum frá sýrlenskum stjórnvöldum. Þetta kemur fram á vef BBC.

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, hefur ítrekað neitað ásökunum um að stjórnarherinn hafi beitt efnavopnum.

Bandarísk stjórnvöld hafa hótað að gera loftárásir á skotmörk í Sýrlandi, en þau saka Assad um að hafa gerst sekur um stríðsglæpi.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem hefur verið á ferðalagi í Evrópu að undanförnu, sagði í Lundúnum í dag að það væri meiri áhætta að gera ekki neitt heldur en að bregðast við með hernaðaraðgerðum. 

Á blaðamannafundi í dag var Kerry spurður hvað Assad gæti gert til að komast hjá árás. Kerry sagði að hann gæti afhent öll efnavopn innan viku. 

Bandarískir embættismenn sögðu síðar, að Kerry hefði með þessu kynnt ákveðna afstöðu en ekki hefði verið um raunverulegt tilboð að ræða. 

Lavrov hefur hins vegar hvatt Sýrlandsstjórn til að færa öll efnavopn í hendur alþjóðlegra aðila sem muni svo sjá um að eyða þeim. 

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert