Hótaði að brenna Kóraninn

Terry Jones ætlaði að brenna 2.998 eintök af Kóraninum. Hann …
Terry Jones ætlaði að brenna 2.998 eintök af Kóraninum. Hann var hins vegar handtekinn og ekkert varð úr hans fyrirætlunum. AFP

Lögreglan í Flórída handtók prestinn Terry Jones sem greindi frá því að hann ætlaði að brenna tæplega 3.000 eintök af Kóraninum, trúarriti múslíma, í gær, þegar þess var minnst að 12 ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin.

Lögreglan stöðvaði Jones, sem er 61 árs gamall, er hann var að aka bifreið með stórt grill í eftirdragi, en bækurnar lágu ofan í grillinu og var búið að hella steinolíu yfir þær. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Hann sagðist ætla að brenna 2.998 bækur í almenningsgarði í Tampa Bay til að minnast þeirra sem létust í árásunum þann 11. september árið 2001. 

Árið 2010 hótaði Jones að brenna Kóraninn og vöktu ummæli hans hörð viðbrögð víða um heim.

Hann er prestur Dove World Outreach Center safnaðarins í Gainsville í Flórída. Árið 2011 brenndi söfnuður hans eintak af Kóraninum og leiddi atburðurinn til blóðugra mótmæla í Mið-Austurlöndum og í Afganistan. 

Jones var handtekinn, ásamt aðstoðarpresti sínum, Marvin Sapp, en lögreglan hafði afskipti af þeim er þeir óku í gegnum bæinn Mulberry í gær. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert