Er Feigenbaum Kobbi kviðrista?

Í 125 ár hefur ráðgátan um Kobba kviðristu, sem myrti fimm konur í Lundúnum, verið óleyst. Nú kveðst breskur lögreglumaður á eftirlaunum hafa komist að því hver maðurinn á bak við Kobba var.

Í gegnum tíðina hafa ýmsir einstaklingar legið undir grun að vera morðinginn alræmdi, sem á ensku nefnist Jack the Ripper. Hollenski listmálarinn Vincent Van Gogh hefur verið nefndur til sögunnar sem mögulegur sakborningur og sömuleiðis rithöfundurinn Lewis Carroll, sem skrifaði ævintýrið um Lísu í Undralandi. Einnig hafa ættingjar Viktoríu Bretadrottningar verið grunaðir um að vera maðurinn sem hélt London í heljargreipum. 

Nú hefur rannsóknarlögreglumaðurinn Trevor Marriott, sem er kominn á eftirlaun, upplýst að hann telji að þýski sjómaðurinn Carl Feigenbaum hafi framið morðin. Fjallað er um þetta á vef Huffington Post.

Marriott segist hafa komist að þessari niðurstöðu með því að rannsaka gömul skjöl auk þess sem hann nýtti nýjustu tækni réttarmeinafræðinnar. 

Samkvæmt rannsókn Marriotts, þá virðist sem að á milli 31. ágúst árið 1888 til 9. nóvember árið 1888 hafi fimm konur, þær Mary Ann Nichols, Annie Chapman, Elizabeth Stride, Catherine Eddowes og Mary Jane Kelly, verið stungnar til bana með hnífi. Morðin voru framin í Whitechapel-hverfinu í London og var stutt á milli morðvettvanganna. 

Marriott segir að rannsóknin hafi ekki verið auðveld, en árið 2011 fór hann í mál við bresku rannsóknarlögrelguna Scotland Yard en hann krafðist þess að fá afhent minnisblöð og ábendingar, sem telja mörg þúsund blaðsíður.

Á þessum tíma var Marriott farinn að þrengja hringinn að Feigenbaum, en skipið sem hann sigldi með til Lundúna lagðist oft við bryggju í hverfinu þar sem morðin voru framin. 

Þá segir, að nýleg skjöl bendi til þess að það sé rangt að morðinginn hafi fjarlægt líffæri úr fórnarlömbum sínum. Áður töldu margir að morðinginn byggi yfir læknisfræðilegri þekkingu.

Marriott telur að þar sem nokkur tími hafi liðið á milli morðanna að þá hafi morðinginn verið ferðamaður, en vitað er til þess að sjómenn hafi sótt í vændiskonur í Whitechapel. 

Þá kemur fram að William Lawton, lögmaður Feigenbaums, hafi eitt sinn sagt við blaðamenn að Feigenbaum hefði viðurkennt að hann hefði framið ódæðisverkin, en hann átti að hafa haldið því fram að sjúkdómur hefði leitt til þess að hann myrti og limlesti konur.

Feigenbaum var að endanum tekinn af lífi vegna morðs sem var framið í New York í Bandaríkjunum árið 1894, en það mál tengist ekki morðunum í Lundúnum.

Kobbi kviðristir er alls sagður hafa borið ábyrgð á dauða fimm kvenna. Marriott bendir hins vegar á, að svipuð morð hafi verið framin fyrir og eftir þau sem eru sérstaklega tileinkuð honum; í Bretlandi, Bandaríkjunum og í Þýskalandi.

Marriott segir ekkert hæft í þeirri lýsingu manna á Kobba að hann hafi verið vel klæddur herramaður.

Marriott hefur hins vegar verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki bein sönnunargögn í höndunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert