Stríðið gegn fíkniefnum að tapast

Stíðið gegn fíkniefnum hefur ekki dregið úr framboði á fíkniefnum …
Stíðið gegn fíkniefnum hefur ekki dregið úr framboði á fíkniefnum sem neinu nemur. Tugir þúsunda hafa hins vegar látið lífið í því AFP

Alheimsstríð gegn ólöglegum fíkniefnum - heróíni, kókaíni og kannabis - virðist ekki ná því markmiði sínu að stemma stigu við framboði á þessum efnum, í ljósi þess að markaðsverð þeirra hefur lækkað umtalsvert, þrátt fyrir að löggæsluyfirvöld hafi hendur í hári fleiri smyglara og fíkniefnasala og geri meira magn upptækt nú en áður. 

Þetta kom fram í skýrslu sem gefin var út í dag. Rannsakendur skoðuðu gögn frá sjö ríkisstofnunum víða um heim sem fylgst hafa með fíkniefnamarkaðnum undanfarinn rúma áratug.

Þrjár þeirra fylgdust með smygli fíkniefna á alþjóðavísu, þrjár fylgdust með Bandaríkjunum og ein með Ástralíu.

Verðið lækkar og varan „batnar“

Götuverð á heróíni hefur hrunið um 81%, kókaíni um 80% og kannabisefnum um 86% á árunum 1990 til 2007 í Bandaríkjunum. Í þessum tölum er tekið tillit til verðbólgu.

Á sama tíma hefur styrkleiki efnanna á götunni aukist um 60%, 11% og 161%.

Í 18 Evrópulöndum hefur götuverð á kókaíni fallið um helming og þrjá fjórðu hluta á heróíni og mun skemmri tíma, eða á árabilinu 2000 til 2009. Kannabisefni í Evrópu voru ekki viðfangsefni rannsóknarinnar.

Í Ástralíu lækkaði verð á kókaíni hins vegar aðeins um 14% á árunum 2000 til 2010, á meðan verð á heróíni og kannabisefnum helmingaðist.

Talið er að verslun með ólögleg fíkniefni velti um 350 milljörðum Bandaríkjadala árlega, eða sem samsvarar 42,7 þúsund milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins, sem er nokkru minna en heildarkostnaðurinn við F-35 verkefnið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert