Kasparov vill verða Letti

Garrí Kasparov
Garrí Kasparov AFP

Rússneski skákmeistarinn Garrí Kasparov ætlar að sækja um lettneskan ríkisborgararétt þar sem hann óttast að stjórnvöld í Rússlandi muni reyna að hindra hann við að ferðast úr landi.

Kasparov tilkynnti í byrjun október um framboð sitt til forseta Alþjóðaskáksambandsins (FIDE) en kjörið fer fram í kringum Ólympíuskákmótið í Tromsö í ágúst á næsta ári. Þar mun hann takast á við sitjandi forseta, samlanda sinn Kirsan Iljumzhinov.

Sá hefur setið á stóli forseta FIDE frá árinu 1995 og hefur setið af sér öll mótframboð, nú síðast frá Anatólí Karpov, fyrrverandi heimsmeistara í skák, árið 2010. Hlaut Iljumzhinov 95 atkvæði gegn 55 atkvæðum Karpovs.

Kasparov ætlar sér að heimsækja yfir 50 lönd í tengslum við framboðið á næstunni og kemur hingað til lands í tengslum við Reykjavíkurskákmótið sem fer fram dagana 4.-12. mars á næsta ári.

Skákmeistarinn dvelur í útlöndum þar sem hann óttast að vera handtekinn í heimalandinu. Hann segist vera í góðum tengslum við Lettland og vonast til þess að Rússland fari inn á sömu lýðræðisbraut og Lettland í framtíðinni.

Í fréttaskýringu Kjartans Kjartanssonar í Morgunblaðinu nýverið kom fram að Íslendingar myndu örugglega styðja framboð Kasparovs

Kirsan Iljumzhinov er rússneskur milljarðamæringur en hann var áður forseti lýðveldisins Kalmikíu. Hann tók við sem forseti Alþjóðaskáksambandsins árið 1995 og hefur setið sem fastast síðan.

Iljumzhinov vakti nokkra athygli árið 2010 þegar hann hélt því fram í viðtali að geimverur hefðu lent á svölum lúxusíbúðar hans í Moskvu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert