Milljónir barna í sárri neyð

Þörfin fyrir neyðarhjálp á Filippseyjum er gríðarleg.
Þörfin fyrir neyðarhjálp á Filippseyjum er gríðarleg. Ljósmynd/Unicef

Hátt í fimm milljónir barna á Filippseyjum hafa orðið fyrir verulegum áhrifum af völdum eins öflugasta fellibyls sem gengið hefur á land í sögunni. Af meira en hálfri milljón fólks sem er á vergangi er tæplega helmingurinn börn. Þar af eru 100.000 börn undir 5 ára aldri.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá UNICEF á Íslandi.

UNICEF vinnur nótt sem nýtan dag við að ná til þessara barna. Í forgangi hefur verið að tryggja vatn- og hreinlætisaðstöðu til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma en börn eru sérlega berskjölduð fyrir þeim. Einnig er allt kapp lagt á að tryggja næringu barna.

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Filippseyjum hefur gengið vel. Heildarupphæðin sem safnast hefur er nú komin vel yfir 11 milljónir. Þúsundir hafa lagt söfnuninni lið og greinilegt er að hamfarirnar hafa hreyft við afar mörgum.

Hlaðborð, vorrúllur og fiðluleikur

Fjölmargir hafa tekið sig til og skipulagt viðburði eða aðrar uppákomur í tengslum við söfnun UNICEF. Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu karla sendi út ákall þar sem landsmenn voru hvattir til að styðja söfnunina og senda sms-ið BARN í númerið 1900.

Filippseyingar á Íslandi hafa skipulagt hádegisverð sem fram fer á sunnudag þar sem boðið verður upp á filippeyskt hlaðborð og allur ágóði mun renna til neyðarsöfnunar UNICEF og filippseyskra samtaka. Meðal þeirra sem koma fram er danshópurinn Swaggerific sem skipaður er ungmennum frá Filippseyjum sem gerðu meðal annars garðinn frægan í Dans dans dans.

Á sunnudag ætlar Ágústa Dómhildur Karlsdóttir, 15 ára fiðluleikari, að leika á fiðlu fyrir gesti og gangandi í Kringlunni og safna framlögum til hjálparstarfsins. Á sama tíma munu Filippseyingar á Dalvík selja heimagerðar vorrúllur til styrktar hjálparstarfi UNICEF.

Fjölmargir hafa heimsótt skrifstofu UNICEF á Íslandi með framlög í söfnunina. Þar á meðal var nemendafélag Álftanesskóla sem kom færandi hendi í gær með 45.000 krónur.

„Það er frábært að finna fyrir þessum mikla samhug og sjá hve margir láta sig málið varða,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. í fréttatilkynningunni.

„Hugur okkar er hjá þeim sem nú þjást á Filippseyjum og öllum þeim fjölmörgu sem eiga um sárt að binda. Margir þeirra Filippseyinga sem búa hér á landi vita heldur ekki enn um ástvini sína. Það er skelfilegt. Við hugsum til þeirra og sendum þeim hlýjar kveðjur.“

Þörfin á Filippseyjum gríðarleg

Þörfin fyrir neyðarhjálp á Filippseyjum er gríðarleg. Aðstæður til hjálparstarfsins eru erfiðar, enda lögðust heilu samfélögin í rúst. Mörg þeirra voru afar viðkvæm fyrir. Samgöngur fóru úr skorðum, rafmagnsleysi hefur ríkt, símasamband legið niðri og skortur verið á eldsneyti. 

Á sunnudag ætlar Ágústa Dómhildur Karlsdóttir, 15 ára fiðluleikari, að …
Á sunnudag ætlar Ágústa Dómhildur Karlsdóttir, 15 ára fiðluleikari, að leika á fiðlu fyrir gesti og gangandi í Kringlunni og safna framlögum til hjálparstarfsins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert