Dæmdur fyrir heimilisofbeldi

Abdelhakim Dekhar árið 1994 og Dekhar 18. nóvember 2013
Abdelhakim Dekhar árið 1994 og Dekhar 18. nóvember 2013 AFP

Maður sem er talinn hafa skotið ljósmyndara á ritstjórn franska dagblaðsins Libération í París nýverið var dæmdur fyrir heimilisofbeldi í Bretlandi skömmu áður en hann flutti aftur til Frakklands.

Libération greinir frá því í dag Abdelhakim Dekhar, sem á yfir höfði sér ákæru fyrir morðtilraun og mannrán í París, var dæmdur fyrir heimilisofbeldi í St. Albans í Bretlandi í janúar sl.

Var hann dæmdur til að gegna samfélagsþjónustu, að vera með rafrænt ökklaband og hálfs árs stofufangelsi. Honum var jafnframt bannað að koma nálægt fyrrverandi maka sínum, námsmanni frá Lettlandi Valentínu A og tveimur börnum þeirra, drengjum sem eru 7 og 9 ára gamlir.

Afplánun dómsins lauk þann 16. júlí og fljótlega eftir það flutti hann aftur heim til Frakklands, samkvæmt frétt Libération í dag. Hann tapaði áfrýjun málsins nú í október og var gert að greiða 400 pund í sakarkostnað.

Hann er grunaður um að hafa haft í hótunum við forsvarsmenn sjónvarpsstöðvar og að hafa farið inn á skrifstofur dagblaðs þar sem hann hóf skothríð og særði ljósmyndara lífshættulega. Hann hóf einnig skothríð fyrir utan skrifstofur banka í borginni.  Jafnframt er hann grunaður um mannrán er hann ógnaði manni og lét hann keyra sig á Champs-Elysées þar sem hann hvarf inn á neðanjarðarlestarstöð.

Saksóknarar segja að lífsýni úr Dekhar, sem er 48 ára, passi við lífsýni sem fundust á vettvangi glæpanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert