Forsetinn ætlar að skrifa undir

Mótmæli á Sjálfstæðistorginu í Úkraínu.
Mótmæli á Sjálfstæðistorginu í Úkraínu. AFP

Forseti Úkraínu hefur fallist á að skrifa undir samstarfssáttmála við Evrópusambandið. Dögum saman hafa þúsundir íbúa landsins mótmælt þeirri stefnu stjórnvalda að draga úr tengslum við ESB. Catherine Ashton sem er yfirmaður utanríkismála hjá ESB sagði í dag að forsetinn „ætlaði sér“ að skrifa undir sáttmálann. Hann hafnaði honum hins vegar í síðasta mánuði eftir að hafa verið beittur þrýstingi frá Rússlandi.

Ashton snéri í dag heim úr tveggja daga heimsókn til Kænugarðs í Úkraínu. Þar fylgdist hún sjálf með mótmælunum. Hún segir að Viktor Janúkóvítsj forseti hafi greint henni frá því að hann ætlaði sér að skrifa undir samstarfssáttmálann.

Ashton hitti bæði forsetann og stjórnarandstæðinga í heimsókn sinni. Hún fór á fundi þeirra til að reyna að ná sáttum í málinu.

Hún segist m.a. hafa rætt efnahagsástand Úkraínu við forsetann. Segist hún sannfærð um að hægt sé að taka á þeim vanda í samvinnu við stofnanir Evrópusambandsins. Þá segir hún sáttmálann sem forsetinn ætli að skrifa undir liðka fyrir erlendum fjárfestingum í Úkraínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert