Kona handtekin fyrir að keyra bíl

Konur mega ekki keyra í Sádi-Arabíu, en þær ögra lögunum …
Konur mega ekki keyra í Sádi-Arabíu, en þær ögra lögunum reglulega með skipulögðum mótmælum. AFP

Lögreglan í Sádi-Arabíu stöðvaði í dag för konu aðeins nokkrum mínútum eftir að hún settist undir stýri bíls í borginni Jeddah við Rauðahafið. Konum er bannað að keyra í Sádi-Arabíu en þær ögra nú ítrekað lögunum.

Aðgerðarsinninn Eman al-Nafjan segir í samtali við Afp að konan, Tamador al-Yami, hafi náð að keyra bílinn í 10 mínútur áður en hún var stöðvuð. Tamador er handhafi alþjóðlegs ökuskírteinis og með henni í bílnum var önnur kona sem tók aðgerðirnar upp á myndband.

Lögreglan kallaði eiginmann Tamador á vettvang og var hún látin skrifa undir eið þess að hún myndi aldrei keyra framar án sádi-arabísks ökuskírteinis. Slík skírteini eru hinsvegar ekki gefin út fyrir konur í ríkinu enda fá þær ekki inngöngu í ökunám.

Í austurhluta Sádi-Arabíu, Khobar, settist önnur kona undir stýri í dag og keyrði í tvær klukkustundir með eiginmann sinn í farþegasætinu. Þau voru ekki stöðvuð af lögreglu.

Aðgerðarsinnar segja að dagurinn í dag hafi verið valinn til mótmælanna vegna táknrænnar dagsetningar, því fyrir rúmum áratug hafi baráttan fyrir ökuréttindum kvenna hafist á þessum degi.

Sádi-Arabía er eina ríki heims þar sem konum er alfarið bannað að keyra bíl. Síðast var gripið til skipulegra mótmælaaðgerða gegn banninu 26. október og voru þá 16 konur stöðvaðar af lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert