Mótmælendur loka götum í Bangkok

Stjórnarandstæðingar lokuðu stórum umferðargötum í Bangkok í dag.
Stjórnarandstæðingar lokuðu stórum umferðargötum í Bangkok í dag. RUNGROJ YONGRIT

Stjórnarandstæðingar í Taílandi lokuðu í dag stórum umferðargötum í höfuðborg landsins, Bangkok, en lítið lát er á mótmælunum þar í landi.

Mótmælendur krefjast þess að forsætisráðherra Taílands, Yingluck Shinawatra, segi af sér og þá hvetja þeir almenning til að sniðganga fyrirhugaðar þingkosningar, sem eiga að fara fram 2. febrúar næstkomandi.

„Hvort sem við sigrum eða töpum, þá munum við halda áfram að berjast. Við munum ekki gera neinar málamiðlanir. Í þessum slag mun aðeins einn sigra,“ hrópaði stjórnarandstöðuleiðtoginn Suthep Thaugsuban á fjölmennum mótmælafundi í Bangkok í dag.

Yingluck boðaði til kosninga í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir frekari átök stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga.

Það virðist ekki hafa gengið eftir. Enn eru stjórnarandstæðingar ósáttir og ætlar Demókrataflokkurinn til dæmis að sniðganga þingkosningarnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert