Biden hvetur Ísraelsmenn til friðarsamninga

Joe Biden varaforseti Bandaríkjanna og Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels á …
Joe Biden varaforseti Bandaríkjanna og Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels á fundi í Jerúsalem í dag. EPA

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, hvetur Ísraelsmenn til að grípa tækifærið og semja frið við Palestínumenn. Biden er nú staddur í Ísrael vegna útfarar Ariels Sharons, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels og átti vinnufund með Shimon Peres, forseta Ísraels.

„Eina svæðið í þessum heimshluta þar sem er tækifæri til friðar og stöðugleika er á milli Palestínumanna og Ísraelsmanna. Á milli tveggja ríkja sem virða fullveldi og öryggi hvors annars,“ sagði Biden.

Fulltrúar þjóðanna tveggja áttu friðarviðræður í júlí í fyrra fyrir tilstuðlan John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og voru það fyrstu beinu viðræður þeirra í tæp þrjú ár. Fallist var á níu mánaða viðræðuáætlun, en hingað til hefur lítið áunnist.

Biden segir erfiðar ákvarðanir framundan, en lét í ljós fullvissu sína um að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, væri reiðubúinn til samninga og sagðist vonast til þess að það sama gilti um Mahmud Abbas, leiðtoga Palestínumanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert